Quizizz
Í stuttu máli:
- Quizzizz er spurningaleikjaforrit.
- Hægt er að velja um fimm tegundir spurninga.
Quizizz er spurningaleikjaforrit þar sem hægt er að velja um að leggja verkefni fyrir nemendur í skólastofunni (Live – hver nemandi með eitt snjalltæki/tölvu) eða sem heimavinnu.
Í Quizizz er hægt að hafa fimm tegundir spurninga:
- Venjulegar krossaspurningar, þar sem einungis er hægt að velja eitt rétt svar.
- Fjölvalsspurningar, þar sem hægt er að merkja við fleiri en einn svarmöguleika.
- Eyðufyllingar.
- Opnar spurningar.
- Skoðanakannanir (Poll).
Einnig er hægt að hafa glærur inni í verkefnunum, til að veita nemendum frekari upplýsingar um leið og þeir glíma við að svara. Til þess að gera þannig verkefni þarf að velja að búa til Lesson en ekki Quiz. Quizizz verkefnin sem fylgja TEMPO eru öll með glærum (Lesson).
Í fríútgáfu forritsins er hægt að setja annaðhvort hljóð eða mynd með spurningunum. Hægt er að leggja verkefni fyrir með því að senda hlekk á þátttakendur en einnig geta kennarar búið sér til bekki/hópa og deilt verkefnunum með þeim, líkt og í Formative, Seesaw og fleiri forritum.
Bæði nemendur og kennarar fá gott yfirlit yfir frammistöðuna og nemendur geta aukinheldur æft sig á því sem miður fór með minnisspjöldum (Flashcards).
Við mælum með því að kennarar búi sér til aðgang á Quizizz og stofni hópa með sínum nemendum. Quizizz er afar gott tól til fjarkennslu og almennrar verkefnavinnu.
Eins og áður segir eru Quizizz verkefnin sem fylgja TEMPO með glærum (Lesson). Þegar um slík verkefni er að ræða þarf að ýta á Next neðst í hægra horninu til að halda áfram:
Einnig þarf stundum að ýta á Submit, sem er líka neðst í hægra horninu (sjá næstu mynd), til að geta haldið áfram. Það á við þegar um ígrundunarspurningar er að ræða, þar sem nemendur þurfa að svara frá eigin brjósti.
Í verkefnunum sem fylgja TEMPO er eins og áður segir ekki gerð krafa um að kennarar búi sér til sinn eigin aðgang. Til að skila verkefnunum til kennara þurfa nemendur þá einfaldlega að taka skjáskot þegar þeir hafa lokið vinnu á hverri blaðsíðu og senda til kennara.